Í tilefni af 75 ára afmæli T.ark arkitekta og aldarminningu brunans mikla í Reykjavík stendur T.ark fyrir ráðstefnu um framtíð módernískra bygginga í borgarlandslaginu í Gamla bíói þann 19.nóvember næstkomandi. Í kjölfar brunans mikla varð steinsteypa aðalbyggingarefni Reykjavíkur og breytti þannig byggðu formi borgarinnar. Því markar þetta ár einnig ákveðinn þröskuld í húsvernd í Reykjavík og er við hæfi að skoða nú hvaða tækifæri liggja í arfleifð byggingarlistar 20. aldarinnar. Niðurrif stórra bygginga vekur upp stöðugt háværari spurningar í sögulegu og vistvænu samhengi, með endurreisn miðbæja og umfang og varanleika bygginganna í huga. Því er ljóst að í auknu mæli verður verkefni arkitekta að nýta byggingarnar sem útgangspunkt og skilgreina þau gæði sem í þeim finnast og draga fram í nýrri notkun eða aðlögun. Tilgangur ráðstefnunnar er að opna umræðuna um arfleifð byggingarlistar 20.aldar, jafnvel okkar alræmdustu húsa og vekja athygli á þeim tækifærum sem liggja á mörkum friðunar, verndunar og endurnýtingu þessara bygginga. Ráðstefnan stendur í einn dag og verður skipt í tvo hluta. Fyrir hádegi verður áherslan á verndun módernískra bygginga en eftir hádegi verður sjónum beint að endurnýtingu og breytingum á þessum byggingum, en ekki síst þeim tækifærum sem liggja á mörkum á milli þessara hugtaka. Fyrirlesarar verða bæði íslenskir og erlendir. Má þar nefna Pétur H. Ármannsson arkitekt, Halldór Eiríksson frá T.ark, Christophe Egret arkitekt frá Studio Egret West í London, Peder Elgaard arkitekt frá Árósum og Brendan Mcfarlane arkitekt frá Jacob + Mcfarlane í París. Nánar um fyrirlesara: 09:20 Pétur H. Ármannsson Pétur þarf ekki að kynna fyrir íslenskum arkitektum, skrif hans og fræðimennska er einstök í íslensku samhengi. Hann mun veita okkur yfirlitsmynd yfir hið móderníska borgarlandslag og verðmæti þess. 10:20 Hjálmar Sveinsson: Hjálmar er formaður umhvefis-og skipulagsráðs Reykjavíkur, en einnig var hann um árabil formaður Faxaflóahafna, meðal annars meðan á umbreytingu gömlu hafnarinnar stóð. Hann mun segja sögu þeirra breytinga frá sínum sjónarhóli sem stjórnmálamaður og heimspekingur. 10:40 Ágústa Kristófersdóttir: Ágústa er forstöðumaður Hafnarborgar og safna- og sagnfræðingur. Hún var sýningastjóri sýningar um Breiðholtið í Listasafni Reykjavíkur fyrir nokkrum árum og mun fjalla um Breiðholtið sem menningararf í víðu samhengi. 11:00 Peder Elgaard: Peder er arkitekt í Kaupmannahöfn og kennari við arkitektaskólana í Danmörku (www.elgaardarchitecture.com ). Hann hefur getið sér nafn í endurbótum og endurgerðum bygginga og var m.a. frá 2008 – 2012 “faglig direktør og kongelig bygningsinspektør” og hafði sem slíkur forræði yfir uþb. 700.000 m2 af vernduðum byggingum í Danmörku 13:20 Hildigunnur Sverrisdóttir 13:40 Halldór Eiríksson: Halldór er arkitekt á T.ark og stundarkennari við LHÍ. Hann mun fjalla um byggingar Loftleiða við Reykjavíkurflugvöll sem menningararf og stækkun T.ark á skrifstofum Icelandair 2011 í því ljósi. 14:00 Brendan Macfarlane: Brendan er annar eigenda Jakob + MacFarlane í París (www.jakobmacfarlane.com/en) en einnig er hann vinsæll gestakennari og fyrirlesari víða um heim. Hann mun fjalla um Paris docs verkefni stofunnar ásamt öðrum verkum sem tengjast þemu ráðstefnunnar. 15:00 Christophe Egret: Park hill Estate and other SEW projects Christophe er annar eigenda Studio Egret West í London (www.egretwest.com) en eins og Brendan er hann gestakennari víða. Hann mun fjalla um Park Hill verkefnið í Sheffield, sem var endurgert 2013, og hlaut RIBA verðlaun fyrir, sömuleiðis mun hann fást við þema ráðstefnunar í öðrum verkum stofunnar, en hún vinnur einnig önnur stór endurnýtingaverkefni á mörkum skipulaga og arkitektúrs. Park Hill hefur í áratugi verið mikið deiluefni Minjaverndar Bretlands og borgaryfirvalda og hafa margir blandast í þær deilur. Má sjá margt um Park Hill, m.a. á Youtube.